Hamar/Þór tapaði í Vesturbænum

Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 15 stig og tók 7 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór heimsótti KR í Vesturbæinn í toppbaráttu 1. deildar kvenna í körfubolta í dag. KR-ingar reyndust sterkari og sigruðu 78-71.

Hamar/Þór komst í 5-10 í upphafi leiks en KR svaraði með 13-2 áhlaupi og staðan var 18-12 eftir 1. leikhluta. Heimakonur juku forskotið í 2. leikhluta og staðan var 36-29 í hálfleik.

Hamar/Þór minnkaði muninn í tvö stig í upphafi seinni hálfleiks en þá kom frábær kafli KR sem stigu hressilega á bensíngjöfina og í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 61-46. Þær sunnlensku gáfust ekki upp og söxuðu hratt á forskot KR og þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum var munurinn orðinn 5 stig, 68-63. Nær komst Hamar/Þór ekki og KR sigldi sigrinum örugglega heim á lokamínútunum.

Aniya Thomas var stigahæst hjá Hamri/Þór með 37 stig og 9 fráköst, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 15 stig og tók 7 fráköst, Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 9 stig og tók 10 fráköst, Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 4 stig, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 2 stig og tók 8 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir skoraði 2 stig og tók 6 fráköst og Anna Katrín Víðisdóttir skoraði 2 stig.

Hamar/Þór er í 4. sæti deildarinnar með 8 stig en KR er á toppnum með 12 stig.

Fyrri greinHamar vann tvö gull á stökkfimimóti
Næsta greinSigurjón Ægir vann gullverðlaun í Litháen