Hamar/Þór sópaði Selfyssingum í sumarfrí

Kristrún Ríkey Ólafsdóttir sækir að körfu Selfoss en Donasja Scott er til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór vann öruggan sigur á Selfossi í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Liðin mættust í Þorlákshöfn þar sem lokatölur urðu 88-60. Hamar/Þór vann einvígið 3-0.

Heimakonurnar afgreiddu leikinn í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 60-27. Í seinni hálfleiknum rúlluðu leikmannahópar beggja liða vel enda komust allir leikmenn beggja liða á blað í kvöld, sem verður að teljast ánægjulegt.

Abby Beeman var framlags- og stigahæst hjá Hamri/Þór með 22 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar á þeim tæpu átján mínútum sem hún spilaði. Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir skoraði 12 stig, Arndís Úlla Árdal og Bergdís Anna Magnúsdóttir 11 og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 10.

Donasja Scott skoraði 24 stig og tók 9 fráköst fyrir Selfoss og Anna Katrín Víðisdóttir og Eva Rún Dagsdóttir skoruðu 6 stig.

Í hinu undanúrslitaeinvíginu sigraði KR Fjölni 3-0, þannig að það verða Hamar/Þór og KR sem mætast í einvígi sem skera mun úr um það hvort liðið spilar í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.

Fyrri greinSelfoss deildarbikarmeistari í C-deild
Næsta greinEndur(á)lit unga fólksins í Húsinu