Hamar/Þór skellti úrvalsdeildarliði í bikarnum

Aniya Thomas. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór sem leikur í 1. deildinni gerði sér lítið fyrir og sló úrvalsdeildarlið Fjölnis úr leik í 16-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í dag. Lokatölur í Hveragerði urðu 71-67.

Fjölnir byrjaði mun betur og komst í 3-10 í 1. leikhluta en áður en hann var flautaður af hafði Hamar/Þór jafnað og staðan var 17-18 að fyrsta leikhluta loknum. Fjölniskonur voru sterkari í 2. leikhluta þar sem Hamar/Þór var að flýta sér í sókninni og staðan í hálfleik var 31-40.

Hamar/Þór kom sér strax inn í leikinn aftur og skoraði átta fyrstu stigin í seinni hálfleik. Leikurinn var í járnum allan 3. leikhluta, þar sem liðin skiptust á um að hafa forystuna en Fjölniskonur voru skrefinu á undan framan af 4. leikhluta.

Hamar/Þór komst yfir 63-60 þegar fimm mínútur voru eftir og eftir það litu þær sunnlensku ekki í baksýnisspegilinn heldur kláruðu leikinn af krafti og unnu frábæran sigur.

Emma Hrönn Hákonardóttir var stigahæst hjá Hamri/Þór með 27 stig og 5 fráköst, Aniya Thomas skoraði 15 stig, tók 11 fráköst og sendi 5 stoðsendingar, Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 9 stig, Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 7 stig og tók 8 fráköst, Gígja Rut Gautadóttir skoraði 7 stig og tók 6 fráköst og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 6 stig og tók 11 fráköst.

Fyrri greinSelfoss gerði góða ferð norður
Næsta greinJólasveinarnir mættu mannhafi í miðbænum