Hamar-Þór sigraði í framlengingu

Ljósmynd/Hamar-Þór

Hamar-Þór hafði betur í framlengingu eftir hnífjafnan leik gegn Vestra á heimavelli í Hveragerði í 1. deild kvenna í körfubolta í dag.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, þar sem liðin skiptust á um að halda forystunni og forskotið varð aldrei meira en 7 stig. Staðan var 37-39 í leikhléi og Vestrakonur höfðu frumkvæðið í upphafi seinni hálfleiks, þangað til Hamar-Þór jafnaði 53-53.

Hamar-Þór skoraði fyrstu fimm stigin í 4. leikhluta og náði fimm stiga forskoti og það tók Vestra allan leikhlutann að jafna metin. Þær jöfnuðu 73-73 þegar 24 sekúndur voru eftir og í næstu sókn fengu Hvergerðingar tvö vítaskot til að tryggja sigurinn en hvorugt þeirra fór niður.

Hamars-Þórskonur voru hins vegar sterkari þegar leið á framlenginguna og sigruðu að lokum 86-80.

Fallyn Stephens var var frábær í liði Hamars-Þórs með 38 stig og 22 fráköst. Hildur Björk Gunnsteinsdóttir skoraði 18 stig og tók 9 fráköst.

Hamar-Þór er í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Vestri er í 9. sæti með 2 stig.

Tölfræði Hamars-Þórs: Fallyn Stephens 38/22 fráköst/5 stoðsendingar, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 18/9 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 11/4 fráköst, Helga María Janusdóttir 7/5 stoðsendingar, Elektra Mjöll Kubrzeniecka 6/6 fráköst, Dagrún Inga Jónsdóttir 3, Ása Lind Wolfram 2/9 fráköst, Perla María Karlsdóttir 1.

Fyrri greinSelfoss elti allan tímann
Næsta greinTvö mörk á lokamínútunum tryggðu KFR sigur