Hamar-Þór í sumarfrí

Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði átta stig fyrir Hamar-Þór. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór er úr leik í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta eftir 67-76 tap gegn Ármanni á heimavelli í dag. Ármann vann einvígið því 2-0.

Hamar-Þór byrjaði betur í leiknum og náði strax sex stiga forystu en Ármenningar svöruðu fyrir sig í kjölfarið og komust yfir. Staðan var 17-20 að loknum 1. leikhluta. Ármann hafði frumkvæðið í 2. leikhluta og náði mest átta stiga forskoti en staðan var 30-35 í hálfleik.

Ármann skoraði fyrstu sex stigin í seinni hálfleik og það varð því hlutskipti Hamars-Þórs að elta allan seinni hálfleikinn. Munurinn varð minnstur fimm stig um miðjan 3. leikhluta en annars var forskot Ármenninga nokkuð öruggt. 

Þegar tvær og hálf mínúta var eftir var munurinn orðinn tuttugu stig, 56-76, en Hamar-Þór skoraði síðustu ellefu stigin í leiknum og minnkaði muninn í níu stig.

Dagný Lísa Davíðsdóttir var með risa framlag fyrir Hamar-Þór, annan leikinn í röð. Hún skoraði 36 stig og tók 16 fráköst. Hrafnhildur Magnúsdóttir kom næst henni með 9 stig.

Fyrri greinSelfyssingar fóru á kostum gegn Fram
Næsta greinÁrborg skoraði þrettán