Hamar-Þór tapaði naumlega fyrir ÍR í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld, 67-62.
ÍR er í harðri toppbaráttu í deildinni en Hamars-Þórs konur voru ekki mikið að velta því fyrir sér, heldur mættu af krafti í leikinn og leiddu 17-20 að loknum 1. leikhluta. ÍR-ingar svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 32-31 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi, Hamar-Þór byrjaði með látum en ÍR svaraði jafn harðan og liðin skiptust á um að halda forystunni. Sóknarleikur Hamars-Þórs fór að hiksta í 4. leikhluta og 13-2 áhlaup ÍR um miðjan leikhlutann gerði út um leikinn. Þær breyttu þar stöðunni úr 48-50 í 61-52 og þá var of lítill tími á klukkunni fyrir Hamar-Þór að svara.
Dagný Lísa Davíðsdóttir var stigahæst hjá Hamri-Þór með 21 stig og 12 fráköst og Ása Lind Wolfram skoraði 11 stig og tók 7 fráköst.
Hamar-Þór er í 4. sæti deildarinnar með 12 stig en ÍR er í 2. sæti með 28 stig.
Tölfræði Hamars-Þórs: Dagný Lísa Davíðsdóttir 21/12 fráköst, Ása Lind Wolfram 11/7 fráköst, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 10/4 fráköst, Hrafnhildur Magnúsdóttir 8/8 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Perla María Karlsdóttir 5, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 5, Helga María Janusdóttir 2.