Hamar-Þór í hátíðarskapi

Jenna Mastellone var stigahæst hjá Hamri-Þór. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Hamars-Þórs ferðaðist norður á Sauðárkrók í gær og heimsótti Tindastól í 1. deildinni í körfubolta.

Þær sunnlensku voru í hátíðarskapi og gerðu út um viðureignina á upphafsmínútunum, þar sem þær skoruðu fyrstu tólf stigin í leiknum. Staðan í hálfleik var 22-41 og úrslitin nánast ráðin.

Boltinn rúllaði vel hjá Hamri-Þór í seinni hálfleiknum og sóknarleikurinn var eins og innihaldið í Mackintosh-dós, allskonar molar og flestir góðir. Hamar-Þór sigraði að lokum 46-74 og Hallgrímur þjálfari fer sáttur inn í jólafríið, óhræddur við jólaköttinn eftir þessa frammistöðu.

Leiðindaóhapp varð undir lok leiks þegar Valdís Una Guðmannsdóttir fékk óviljandi högg á gagnaugað og rotaðist. Valdís Una var flutt með heilahristing á sjúkrahús en er öll að koma til og fékk að ferðast aftur heim með liðinu.

Jenna Mastellone var stigahæst hjá Hamri-Þór með 32 stig, Stefanía Ósk Ólafsdóttir skoraði 12 og Helga María Janusdóttir 9.

Hamar-Þór fer inn í jólafríið í 4. sæti deildarinnar, með 14 stig en Tindastóll er í 8. sætinu með 4 stig.

Fyrri greinSelfoss elti allan seinni hálfleikinn
Næsta greinÁfram skert þjónusta hjá sundlaugunum