Hamar/Þór mun halda sæti sínu í úrvalsdeild kvenna í körfubolta á næsta keppnistímabili eftir að Þór Akureyri ákvað að draga lið sitt úr keppni í deildinni.
Þær sunnlensku töpuðu naumlega í einvígi gegn KR í vor, þar sem sæti í úrvalsdeildinni var í húfi. Það kemur ekki að sök og liðið mun áfram leika í deild þeirra bestu.
Eftir að Þór Akureyri dró lið sitt úr keppni í úrvalsdeildinni bauð Körfuknattleikssamband Íslands Hamar/Þór í framhaldinu að skrá lið í úrvalsdeildina á næsta tímabili. Stjórn Hamars/Þórs ræddi boðið og ræddi við leikmenn og niðurstaða stjórnar var sú að þiggja boðið.
„Þetta er ánægjuleg niðurstaða fyrir Hamar/Þór en um leið mikil áskorun fyrir ungt lið í uppbyggingarstarfi. Er það von allra sem að liðinu standa að Sunnlendingar allir séu sáttir við niðurstöðuna og styðji liðið og starfið í baráttunni framundan líkt og hingað til,“ segir í tilkynningu frá Hamri/Þór.
Körfuknattleiksdeildir Hamars í Hveragerði og Þórs frá Þorlákshöfn hófu samstarf vorið 2020 og skráðu sameiginlegt lið Hamars/Þórs í 1. deild kvenna. Liðið sigraði 1. deildina vorið 2024 og lék í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn síðasta vetur.