Hamar-Þór elti allan tímann

Stefanía Ósk Ólafsdóttir skoraði 14 stig og sendi 5 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór fékk Þór Akureyri í heimsókn í 1. deild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í dag. Gestirnir voru sterkari í lokin og sigruðu 71-79.

Heimakonur voru á hælunum í upphafi leiks og Þór Ak skoraði fyrstu tíu stigin. Þá loksins rönkuðu þær sunnlensku við sér en Þórsarar voru komnir með gott forskot þegar 1. leikhluta lauk, 19-31. Hamar-Þór minnkaði muninn í sex stig í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 33-41.

Þriðji leikhluti var í járnum, Þórsarar virtust ætla að skríða framúr en Stefanía Ósk Ólafsdóttir og Jenna Mastellone negldu niður þristum á lokamínútunni og minnkuðu muninn í fimm stig, 56-61.

Gestirnir héngu á forskotinu allan 4. leikhluta, Hamar-Þór minnkaði muninn í eitt stig þegar sex mínútur voru eftir en nær komust þær ekki og Þórsarar bættu í á lokakaflanum.

Jenna Mastellone var stigahæst hjá Hamri með 34 stig, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 15 stig og tók 8 fráköst og Stefanía Ósk var sömuleiðis öflug með 14 stig og 5 stoðsendingar.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar-Þór er í 5. sæti deildarinnar með 12 stig en Þór Ak. er í 2. sæti með 18 stig.

Tölfræði Hamars-Þórs: Jenna Mastellone 34/6 fráköst, Emma Hrönn Hákonardóttir 15/8 fráköst, Stefanía Ósk Ólafsdóttir 14/6 fráköst/5 stoðsendingar, Gígja Rut Gautadóttir 3/4 fráköst, Helga María Janusdóttir 3, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 2.

Fyrri greinHamar á toppnum um jólin
Næsta greinTokic semur við Ægi