Hamar/Þór elti allan tímann

Hasar á hliðarlínunni í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrstu umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik lauk í kvöld þegar Hamar/Þór tók á móti Grindavík í Þorlákshöfn. Heimakonur eltu nánast allan leikinn og þurftu að sætta sig við 74-89 tap.

Grindavík byrjaði betur og náði tíu stiga forskoti um miðjan 1. leikhluta, 8-18. Þær sunnlensku svöruðu með áhlaupi undir lok leikhlutans og náðu að minnka muninn í 23-26. Allt var í járnum framan af 2. leikhluta en um hann miðjan gerði Grindavík áhlaup og náði tólf stiga forskoti en Hamar/Þór klóraði í bakkann undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 38-45 í leikhléi.

Gestirnir frá Grindavík héldu öruggu forskoti allan 3. leikhluta en spenna hljóp í leikinn þegar Hamar/Þór minnkaði muninn í eitt stig snemma í fjórða leikhluta, 69-70. Nær komst Hamar/Þór ekki, Grindavík reif sig aftur frá þeim og náði fimmtán stiga forskoti á lokakaflanum.

Jada Guinn var stigahæst í liði Hamars/Þórs með 25 stig og 8 stoðsendingar, Mariana Duran skoraði 18 stig, Jovana Markovic 13, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 9, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 5 og þær Bergdís Anna Magnúsdóttir og Ellen Iversen skoruðu 2 stig og Iversen tók 10 fráköst að auki.

Fyrri greinGrindvíkingar í fókus: Nýtt stuðningsverkefni til valdeflingar
Næsta greinSkellur í Eyjum