Hamar tekur forystuna

Hamar leiðir 1-0 í einvíginu við Njarðvík í undanúrslitum Iceland Express-deildar kvenna í körfubolta en Hamar sigraði 33-33 í hörkuleik í Hveragerði í dag.

Hamarsliðið var nokkuð lengi að ná takti í leiknum og gestirnir leiddu nær allan fyrri hálfleikinn. Hamar komst þó framúr fyrir leikhlé og leiddi 45-40 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var jafn en Hamar hafði forystuna allan tímann þó að Njarðvíkingar væru yfirleitt ekki nema fimm stigum fyrir aftan. Síðasti leikhlutinn var ekki mjög spennandi þó að munurinn væri lítill en Hamarskonur voru skynsamar og héldu Njarðvíkingum frá sér.

Jaleesa Butler var stigahæst hjá Hamri með 24 stig og 13 fráköst. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 16 stig, Slavica Dimovska 15, Guðbjörg Sverrisdóttir 12 og Jenný Harðardóttir 8. Fanney Guðmundsdóttir var komin með fjórar villur í upphafi 2. leikhluta en hún lék vel í seinni hálfleik með villurnar á bakinu. Fanney skoraði 5 stig, Íris Ásgeirsdóttir 3 og Þórunn Bjarnadóttir 2.

Hjá Njarðvík voru útlendingarnir þrír allt í öllu og íslenskur leikmaður komst ekki á blað fyrr en í þriðja leikhluta. Shayla Fields skoraði 26 stig, þar af 20 í fyrri hálfleik, Dita Liepkalne 23 og Julia Demirer stóð sig vel gegn sínu gamla liði með 18 stig og 19 fráköst.

Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst áfram og mætir Keflavík eða KR í úrslitarimmu um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin mætast næst í Njarðvík á mánudagskvöld.