Hamar hefur tekið 1-0 forystu í einvíginu gegn Snæfelli í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta. Liðin mættust í Hveragerði í kvöld þar sem lokatölur urðu 106-93.
Hvergerðingar höfðu góð tök á leiknum í fyrri hálfleik og leiddu 61-42 í leikhléi. Gestirnir hresstust nokkuð í síðari hálfleik og höfðu betur heilt yfir án þess að ná að saxa niður forskotið sem Hamar hafði byggt upp í fyrri hálfleik.
Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki mætir annað hvort Breiðabliki eða Vestra í úrslitaeinvígi um sæti í úrvalsdeildinni. Næsti leikur liðanna verður í Stykkishólmi á mánudaginn.
Julian Nelson átti fínan leik fyrir Hamar í kvöld og var besti maður vallarins en Hvergerðingar fengu gott framlag frá breiðum hópi leikmanna í kvöld, meðal annars kom Dovydas Strasunskas sterkur inn af bekknum.
Tölfræði Hamars: Julian Nelson 28/11 fráköst/5 stoðsendingar, Jón Arnór Sverrisson 17/5 fráköst, Dovydas Strasunskas 16/7 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 12/5 fráköst, Kristinn Ólafsson 11/6 fráköst, Larry Thomas 9/8 fráköst/5 stoðsendingar, Smári Hrafnsson 8/6 stoðsendingar, Mikael Rúnar Kristjánsson 3, Ísak Sigurðarson 2/7 fráköst.