Hamar tapaði toppslagnum

Örvar Hugason skoraði fyrir Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og GG mættust í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld og í sama riðli tóku Stokkseyringar á móti Berserkjum.

Hamar og GG voru bæði taplaus fyrir leik kvöldsins og búin að stinga önnur lið í riðlinum af. Tvö efstu sætin gefa farmiða í úrslitakeppni 4. deildarinnar. Það var hart barist í kvöld en gestirnir frá Grindavík höfðu betur í 1-2 sigri. GG komst yfir strax á 5. mínútu en á 30. mínútu jafnaði Kristjan Stosic fyrir Hamar. Gestirnir fengu svo vítaspyrnu á 42. mínútu og úr henni kom sigurmarkið. Seinni hálfleikur var markalaus og GG tók því forystuna í riðlinum.

Örvar Hugason var á skotskónum fyrir Stokkseyringa sem tóku á móti sterku liði Berserkja. Gestirnir byrjuðu af krafti og komust í 0-3 á sex mínútna kafla í upphafi leiks. Þriðja mark Berserkja kom á 18. mínútu en mínútu síðar minnkaði Örvar muninn í 1-3. Berserkir bættu við fjórða marki sínu á 27. mínútu og staðan var 1-4 í hálfleik en á þriðju mínútu síðari hálfleiks minnkaði Örvar muninn í 2-4 með marki úr vítaspyrnu og þar við sat. Lokatölur 2-4.

Hamar er í 2. sæti C-riðils með 18 stig, þremur stigum á eftir GG. Þar á eftir koma Berserkir með 12 stig en Stokkseyri er í næst neðsta sætinu með 6 stig.

Fyrri greinSumarlestur er mikilvægur
Næsta greinViktor veiddi fyrsta lax sumarsins