Hamar tapaði toppslagnum – Hrunamenn steinlágu

Jose Aldana skoraði 17 stig og sendi 15 stoðsendingar, auk þess sem hann tók 7 fráköst. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hamar og Hrunamenn töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar lék gegn Breiðabliki í toppbaráttunni en Hrunamenn mættu Álftanesi.

Það voru talsverðar sveiflur í leik Breiðabliks og Hamars í Kópavoginum í kvöld. Blikar byrjuðu mun betur í leiknum en Hamar kom til baka í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 52-50, Blikum í vil.

Hamar náði forystunni aftur í upphafi 3. leikhluta en Blikar lokuðu leikhlutanum vel og staðan var 76-71 þegar 4. leikhluti hófst. Hann var æsispennandi en Blikar höfðu sigur að lokum, 98-95.

Michael Philips var stigahæstur Hamarsmanna með 24 stig og 12 fráköst, Jose Aldana skoraði 17 stig og sendi 15 stoðsendingar, auk þess sem hann tók 7 fráköst og Ruud Lutterman skoraði 17 stig og tók 10 fráköst.

Toppbaráttan í 1. deildinni er svakaleg en Breiðablik skaust á toppinn með sigrinum, Blikar hafa 18 stig en Hamar er í 2. sæti með 16 stig.

Á Álftanesi áttu Hrunamenn áttu verulega undir högg að sækja í kvöld gegn heimamönnum í liði Álftaness. Álftanes tók völdin strax í 1. leikhluta og staðan var orðin 63-32 í hálfleik. Forskot heimamanna jókst svo jafnt og þétt í seinni hálfleik og lokatölur urðu 117-64. Yngvi Freyr Óskarsson var stigahæstur Hrunamanna með 23 stig og Corey Taite skoraði 19.

Tölfræði Hamars: Michael Philips 24/12 fráköst, Ruud Lutterman 17/10 fráköst/3 varin skot, Jose Aldana 17/7 fráköst/15 stoðsendingar, Þorvaldur Orri Árnason 15, Pálmi Geir Jónsson 12/9 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 7/4 fráköst, Steinar Snær Guðmundsson 3.

Tölfræði Hrunamanna: Yngvi Freyr Óskarsson 23/8 fráköst, Corey Taite 19, Karlo Lebo 12/12 fráköst, Eyþór Orri Árnason 3, Þórmundur Smári Hilmarsson 3, Hringur Karlsson 2, Florijan Jovanov 2/4 fráköst.