Hamar tapaði óvænt

Stefán Þór Hannesson, fyrirliði Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamarsmenn töpuðu óvænt fyrir Álafossi í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld, þegar liðin mættust á Tungubökkum í Mosfellssveit.

Kristjan Stosic kom Hamri yfir á 11. mínútu leiksins en heimamenn fengu vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks og skoruðu úr henni svo að staðan var 1-1 í leikhléi.

Álafoss skoraði sigurmarkið á 60. mínútu og þar við sat þrátt fyrir ágætar sóknir Hvergerðinga.

Þrátt fyrir tvö töp í röð þá er staða Hamars í C-riðlinum góð en liðið hefur 18 stig í 2. sæti og er með fimm stiga forskot á Berserki í 3. sætinu. Álafoss var í næst neðsta sæti riðilsins fyrir leikinn í kvöld en lyfti sér upp í 4. sætið með sigrinum.

Fyrri greinBIRNA syngur „Shallow“ í nýju myndbandi
Næsta greinÍslandsmeistarar og landsliðsfólk heiðrað