Hamar tapaði í uppgjöri botnliðanna

Markaskorarinn Ingimar Þorvaldsson sækir að marki Hafna í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Róðurinn er orðinn þungur hjá Hamarsmönnum í 4. deild karla í knattspyrnu. Í kvöld tapaði liðið 1-2 á heimavelli gegn Höfnum, í uppgjöri botnliðanna.

Leikurinn var opinn og líflegur og bæði lið höfðu átt ágætar sóknir áður en Ingimar Þorvaldsson kom Hamri yfir með glæsilegu marki á 27. mínútu.

Staðan var 1-0 í hálfleik en á upphafsmínútum seinni hálfleiks tókst Höfnum að jafna metin. Á 67. mínútu varð Tomas Alassia fyrir því óláni að setja boltann í eigið net og gestirnir komnir í forystu.

Þrátt fyrir að Hamar hafi átt leynivopn á bekknum þá skilaði það ekki árangri en bæjarstjóranum Pétri Markan var skipt inná á 81. mínútu. Honum tókst ekki að jafna metin, frekar en liðsfélögum hans og lokatölur urðu 1-2.

Keppni í 4. deildinni er nú hálfnuð en Hamar situr á botni deildarinnar með 1 stig, átta stigum á eftir Höfnum sem eru í 9. sætinu.

Fyrri greinTuttugu ár síðan Foo Fighters djammaði á Stokkseyri
Næsta greinÆgir jók forskotið á toppnum