Hamar tapaði einvíginu gegn KFS

Úr leik hjá Hamri í sumar. Bjarki Rúnar Jónínuson með boltann. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar missti af sæti í 3. deild karla í knattspyrnu í dag þegar liðið tapaði 0-1 á heimavelli gegn KFS í úrslitakeppni 4. deildarinnar.

Þetta var seinni leikur liðanna og KFS vann einvígið samtals 2-0. 

Það var hörkustemning á Grýluvelli í dag og hart barist en leikurinn var markalaus allt þar til um miðjan seinni hálfleikinn að KFS skoraði sigurmarkið. Hamarsmenn þurftu þá að skora þrjú mörk og það gekk ekki þrátt fyrir ágætar sóknir liðsins.

Hamar mun leika um 3. sætið í 4. deildinni næstkomandi laugardag, annað hvort gegn ÍH eða Kormáki/Hvöt.