Hamar tapaði í Vesturbænum

Kvennalið Hamars tapaði fyrir KR á útivelli þegar liðin mættust í fyrstu umferð Iceland Express-deildarinnar í körfubolta í kvöld. KR sigraði 73-60.

KR byrjaði betur og komst í 19-8 undir lok 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 21-12.

Hamar byrjaði betur í 2. leikhluta og fimm stig í röð frá Kristrúnu Antonsdóttur minnuðu muninn í 21-20. Hamar skoraði hins vegar ekki stig á síðustu fimm mínútum leikhlutans og KR breytti stöðunni úr 25-24 í 38-24 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Þrátt fyrir þennan slæma kafla í 2. leikhluta komu Hamarskonur tvíelfdar til leiks í seinni hálfleik. KR náði reyndar að auka muninn í 17 stig, 43-26, áður en Hamarskonur tóku við sér og skoruðu 19 stig gegn 6. Þær minnkuðu muninn niður í fjögur stig, 49-45 en KR skoraði síðustu körfu leikhlutans og staðan var 51-45 að honum loknum.

KR var skrefinu á undan í síðasta fjórðungnum og náðu 15 stiga forskoti þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum en lokatölur voru 73-60.

Samantha Murphy var stigahæst hjá Hamri með 20 stig, Hannah Tuomi skoraði 18 stig og tók 18 fráköst og þær Kristrún Antonsdóttir og Jenný Harðardóttir skoruðu báðar 8 stig, auk þess sem Jenný tók 10 fráköst.

Fyrri grein„Þruma úr heiðskíru lofti“
Næsta greinHaustfundur kúabænda í kvöld