Hamar tapaði í tvíframlengdum leik

Tvær framlengingar þurfti til að knýja fram úrslit í leik Hamars og KFÍ í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld. Ísfirðingar höfðu að lokum sigur, 106-109.

KFÍ skoraði fimm fyrstu stigin í leiknum en Hamar jafnaði 10-10 og staðan var 30-28, Hvergerðingum í vil, að loknum 1. leikhluta.

Gestirnir byrjuðu betur í 2. leikhluta og komust í 36-40 en þá tók Hamar við sér og skoraði tíu síðustu stigin í fyrri hálfleik. Staðan var 46-40 í leikhléinu.

Hamar var skrefinu á undan í 3. leikhlutanum og hélt sínu forskoti en staðan var 67-60 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

KFÍ jafnaði metin, 77-77, þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Í næstu sóknum fór Ragnar Nathanaelsson tvívegis á vítalínuna fyrir Hamar en hitti aðeins úr einu af fjórum vítaskotum sínum og breytti stöðunni í 78-77.

Jerry Hollis kom Hamri þremur stigum yfir með tveimur vítaskotum á lokamínútunni en KFÍ jafnaði þegar átta sekúndur voru eftir á klukkunni. Hamar tapaði boltanum í lokasókninni og KFÍ fékk tækifæri á að stela sigrinum en tókst það ekki og því var framlengt.

Hamar var skrefinu á undan í fyrri framlengingunni og leiddi 95-92 þegar tvær sekúndur voru eftir. KFÍ reyndi að jafna með þriggja stiga skoti þar sem Hjalti Valur Þorsteinsson braut á skotmanninum sem jafnaði 95-95 úr þremur vítaskotum.

KFÍ skoraði fimm fyrstu stigin í seinni framlengingunni og náðu að halda því forskoti út leikinn.

Jerry Hollis var bestur í liði Hamars með 31 stig og 11 fráköst. Örn Sigurðarson átti sömuleiðis fínan leik með 28 stig og 12 fráköst. Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 11 stig, Hjalti Valur Þorsteinsson 8 og Ragnar Nathanaelsson og Halldór Gunnar Jónsson skoruðu báðir 7 stig en Ragnar tók 13 fráköst að auki.

Fyrri greinJónas og lúðrasveitin á toppnum
Næsta greinVandræðalaust hjá Þórsurum