Hamar tapaði fyrir botnliðinu

Hamarsmenn töpuðu 89-84 þegar þeir heimsóttu botnlið ÍR í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur en það voru heimamenn sem byrjuðu betur og leiddu að loknum 1. leikhluta, 27-21. Hamar kom til baka í 2. leikhluta, náði 15-2 kafla undir lok leikhlutans og leiddi í hálfleik, 42-44.

ÍR-ingar náðu svo þægilegu forskoti í 3. leikhluta þar sem ekkert gekk upp hjá Hamri og ÍR leiddi 74-58 á fyrstu sekúndum 4. leikhluta.

Hamar tók aftur við sér í síðasta fjórðungnum og spennustigið hækkaði þegar á leið. Hamar náði að breyta stöðunni úr 84-63 í 86-80 þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Í hamaganginum á hliðarlínunni fékk Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, tæknivillu og var vísað úr húsi fyrir mótmæli þegar um tæpar sex mínútur voru eftir af leiknum. Það virtist efla Hamarsmenn ef eitthvað var en þeir komust þó ekki nær en þremur stigum. Hilmar Guðjónsson setti niður þrist þegar 22 sekúndur voru eftir af leiknum og breytti stöðunni í 87-84 en Sveinbjörn Claesson kláraði leikinn fyrir ÍR af vítalínunni.

Darri Hilmarsson skoraði 23 stig fyrir Hamar og tók 14 fráköst. Andre Dabney skoraði 19 stig, Ellert Arnarson 16 og Kjartan Kárason 11.

Fyrri greinSelfoss lá gegn Val
Næsta greinMakaskipti halda uppi markaðinum