Hamar tapaði stórt á Króknum

Hamar tapaði 106-73 fyrir toppliði Tindastóls í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust á Sauðárkróki.

Fyrsti leikhluti var jafn en Tindastóll komst yfir undir lok hans þegar þeir breyttu stöðunni úr 15-19 í 29-23 á síðustu fimm mínútum leikhlutans. Hamarsmenn áttu svo engin svör í vörninni við stórleik Stólanna í 2. leikhluta en heimamenn hófu hann á 18-5 áhlaupi og staðan var þá orðin 47-28. Staðan var 61-35 í hálfleik.

Tindastóll hélt áfram stórskotahríðinni í upphafi seinni hálfleiks og náði mest 46 stiga forskoti, 87-41. Þar með var leikurinn afgreiddur af hálfu heimamanna en Hvergerðingar klóruðu lítillega í bakkann í síðasta fjórðungnum.

Danero Thomas skoraði 15 stig fyrir Hamar, Halldór Gunnar Jónsson 12, Snorri Þorvaldsson 10, Aron Freyr Eyjólfsson 9, Sigurður Orri Hafþórsson 8, Bjarni Rúnar Lárusson 7, Bragi Bjarnason 6, Emil Fannar Þorvaldsson 4 og Ingvi Guðmundsson 2.

Hamar er í hörkubaráttu við Breiðablik og FSu um sæti í úrslitakeppninni og Hvergerðingar þurfa að halda vel á spöðunum í framhaldinu ætli þeir sér að komast þangað.