Hamar tapaði og fór á botninn

Kvennalið Hamars er komið í fallsæti Iceland Express deildarinnar í körfubolta en liðið tapaði fyrir Snæfelli í dag á sama tíma og Fjölnir sigraði KR.

Fjölnir lagði KR 59-58 og fór því uppfyrir Hamar sem er nú á botninum með 12 stig.

Hamar sá aldrei til sólar í dag í Stykkishólmi. Snæfell náði forskoti strax í 1. leikhluta og leiddi í hálfleik, 46-25. Jafnræði var með liðunum í 3. leikhluta en Snæfell kláraði leikinn síðan örugglega í síðasta fjórðungnum og lokatölur voru 87-56.

Katherine Graham var stigahæst hjá Hamri með 16 stig, Fanney Guðmundsdóttir skoraði 13 og Marín Laufey Davíðsdóttir 12 auk þess sem hún tók 10 fráköst.