Hamar tapaði í Vesturbænum

Hamar tapaði 2-1 þegar liðið heimsótti Knattspyrnufélag Vesturbæjar í Reykjavík í kvöld.

Fyrri hálfleikur í leiknum í kvöld var tíðindalítill en bæði lið fengu þó ágætis færi. Hamar átti skot í slánna og þá bjargaði Björn Metúsalem Aðalsteinsson, markvörður Hamars, nokkrum sinnum vel. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komust heimamenn í 2-0 á sex mínútna kafla um miðjan síðari hálfleik. Tómas Hassing minnkaði muninn fyrir Hamar á 86. mínútu en nær komust Hvergerðingar ekki þrátt fyrir þungar sóknir á lokakafla leiksins.

Hamar er í harðri fallbaráttu við Fjarðabyggð og KFR en getur hrist Rangæingana af sér með sigri í næsta leik, auk þess sem Hamar og Fjarðabyggð eiga eftir að leika innbyrðis.