Hamar tapaði í Ólafsvík

Hamarsmenn heimsóttu topplið Víkings Ólafsvík heim í dag í 2. deild karla í knattspyrnu. Heimamenn skoruðu eina mark leiksins.

Víkingar voru sterkari í fyrri hálfleik og áttu nokkur ákjósanleg færi en Björn Aðalsteinsson var funheitur í marki Hamars og varði nokkrum sinnum glæsilega.

Leikurinn róaðist nokkuð í síðari hálfleik en heimamenn voru áfram aðgangsharðir. Eina mark leiksins kom á 80. mínútu og var það sjálfsmark hjá Helga Guðnasyni.

Hamar er í 9. sæti 2. deildar með 20 stig og mætir botnliði KV í næstu umferð á heimavelli. Með sigri getur Hamar tryggt sér áframhaldandi veru í deildinni. Á sama tíma þarf BÍ/Bolungarvík að sigra Víði.