Hamar tapaði í Hólminum

Kvennalið Hamars tapaði fjórða leik sínum í Iceland Express deildinni í körfubolta þegar liðið heimsótti Snæfell í Stykkishólm í dag. Snæfell sigraði 80-70.

Snæfell skoraði fyrstu fjögur stigin í leiknum en þá tóku Hvergerðingar við sér og leiddu 15-20 að loknum fyrsta leikhluta. Samantha Murphy fór mikinn fyrir Hamar á upphafsmínútum 2. leikhluta og kom Hamri í 15-29 með stolnum boltum og þriggja stiga körfum og í kjölfarið náði Hamar mesta forskoti sínu í leiknum, 15-31. Snæfell hafði ekkert komist áfram gegn sterkri svæðisvörn Hamars en þær svöruðu með 13-1 kafla og breyttu stöðunni í 30-32 í hálfleik.

Snæfell komst yfir strax í 3. leikhluta en Hamar svaraði og komst í 37-41. Eftir það snerist taflið við því Snæfell setti mikinn kraft í sóknarleikinn og komst í 51-46 á meðan Hamarsliðið hitti mjög illa. Staðan var 55-49 að loknum 3. leikhluta.

Snæfell hélt forystunni allan síðasta fjórðunginn og náði mest sextán stiga forskoti, 75-59, en Hamar klóraði í bakkann undir lokin, án þess að ná að ógna sigri Snæfells.

Samantha Murphy skoraði 32 stig fyrir Hamar, Hannah Tuomi 19, Jenný Harðardóttir 6, Bylgja S. Jónsdóttir 5, Kristrún Antonsdóttir 4, Álfhildur Þorsteinsdóttir 3 og Sóley Guðgeirsdóttir 1.

Þetta var fjórða tap Hamars í deildinni í röð og liðið er eitt á botninum án stiga. Sl. miðvikudag tók Hamar á móti Njarðvík og tapaði 72-91. Murphy skoraði 29 stig í leiknum og Tuomi 28. Álfhildur skoraði 9 stig, Jenný skoraði 4 og tók 13 fráköst og Adda María Óttarsdóttir skoraði 2 stig.