Hamar tapaði í háspennuleik

Kvennalið Hamars tapaði naumlega gegn Haukum, 70-77, í Iceland Express-deildinni í kvöld. Liðin voru jöfn á stigatöflunni fyrir leikinn.

Hamarskonur léku án Hannah Tuomi sem er meidd á hné. Þar munar um minna því Tuomi hefur verið illviðráðanleg undir körfunni í vetur, með 23 stig og 15 fráköst að meðaltali. Marín Davíðsdóttir leysti hana af hólmi undir körfunni og stóð sig vel en lenti fljótlega í villuvandræðum.

Fyrsti leikhlutinn var hnífjafn og staðan að honum loknum 19-19. Það sama var uppi á teningnum í 2. leikhluta en þegar hann var hálfnaður var staðan 29-30. Haukar skoruðu þá sex stig í röð og náðu sjö stiga forskoti en Hamar svaraði með tíu síðustu stigunum í leikhlutanum og staðan var 39-36 í hálfleik.

Það var mikill hamagangur í upphafi þriðja leikhluta en að sama skapi lítið skorað. Haukar voru duglegir í vörninni og náðu tveggja stiga forystu með því að skora fimm fyrstu stigin í leikhlutanum.

Hamar svaraði með sex stigum í röð og liðin skiptust á um að hafa forystuna á næstu mínútum. Haukakonan Hope Elam sat af sér mest allan þriðja leikhlutann en hún fékk tvær villur á tuttugu sekúndna kafla og settist á bekkinn með fjórar villur.

Staðan var 51-51 þegar síðasti fjórðungurinn hófst og jafnræðið hélt áfram allt þar til fjórar mínútur voru eftir. Í stöðunni 63-63 skoruðu Haukar átta stig í röð og hristu þar með Hamarskonur af sér. Hamar hitti illa á þessum kafla og missti boltann tvívegis í sókninni og þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 63-71 og allt útlit fyrir Haukasigur.

Hamar náði tvívegis að minnka muninn niður í fjögur stig á lokamínútunni en Haukar héldu út. Þar munaði ekki síst um þriggja stiga körfu Margrétar Hálfdánardóttur en það var eina þriggja stiga karfa Hauka í tuttugu tilraunum í leiknum.

Samantha Murphy var lang stigahæst hjá Hamri með 32 stig. Hún var frábær í fyrri hálfleik en nokkuð dró af henni í seinni hálfleik. Álfhildur Þorsteinsdóttir átti mjög góðan leik, skoraði 9 stig og tók 15 fráköst en hún var eini leikmaðurinn á vellinum í kvöld sem spilaði allar 40 mínúturnar. Marín Davíðsdóttir lék einnig vel, skoraði 8 stig og tók 10 fráköst. Jenný Harðardóttir skoraði sömuleiðis 8 stig, Kristrún Rut Antonsdóttir 6, Sóley Guðgeirsdóttir 5 og Dagný Davíðsdóttir 2.

Hjá Haukum átti Jence Rhoads sannkallaðan stórleik og var einu frákasti frá þrefaldri tvennu. Rhoads skoraði 21 stig, sendi 10 stoðsendingar og tók 9 fráköst. Hope Elam lék einnig vel, sérstaklega í fyrri hálfleik, skoraði 23 stig og tók 12 fráköst. Íris Sverrisdóttir skoraði 14 stig, Margrét Hálfdánardóttir 10, Guðrún Ámundadóttir 6, María Sigurðardóttir 2 og Sara Pálmadóttir 1.