Hamar tapaði í Grindavík

Karlalið Hamars tapaði 87-76 þegar liðið mætti Grindavík á útivelli í Iceland Express-deildinni í körfubolta í kvöld.

Fyrri hálfleikur var jafn og liðin skiptust á að hafa forystuna þó að Grindvíkingar hafi verið skrefinu á undan mestan hluta fyrri hálfleiks. Grindavík leiddi 23-21 að loknum 1. leikhluta en Hamar hafði yfir í hálfleik, 38-41.

Grindavík tók forystuna í 3. leikhluta og náði mest 11 stiga forskoti áður en Hamar svaraði fyrir sig. Hvergerðingar komust yfir aftur og leiddu að loknum 3. leikhluta, 59-61.

Fyrstu mínútur síðasta fjórðungsins voru æsispennandi en um miðjan leikhlutann breyttu Grindvíkingar stöðunni úr 65-69 í 83-71 með 18-2 leikkafla. Hvergerðingar voru slegnir út af laginu og Grindvíkingar kláruðu leikinn.

Devin Sweetney skoraði 32 stig fyrir Hamar, Darri Hilmarsson 16 og Lárus Jónsson 9 en aðrir minna.

Þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni eru Hamarsmenn aftur komnir í fallsæti en staða sex neðstu liðanna er mjög jöfn.

Hamar á eftir heimaleiki gegn ÍR og Stjörnunni og útileik í Stykkishólmi.