Hamar tapaði í framlengdum leik

Hamar tapaði fyrir Þór Ak í 1. deild karla í körfubolta í hnífjöfnum leik á Akureyri í kvöld. Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit.

Leikurinn var jafn allan tímann en Hamar hafði frumkvæðið í 2. og 3. leikhluta og leiddi 33-39 í hálfleik. Hvergerðingar héldu forskotinu allt þar til tæpar sjö mínútur voru eftir af leiknum að Þór komst yfir, 64-63.

Spennan var mikil undir lokin en Hamar náði að breyta stöðunni úr 77-74 í 77-80 með sex stigum í röð á lokamínútunni. Þórsarar áttu hins vegar síðasta orðið í venjulegum leiktíma og tryggðu sér framlengingu með þriggja stiga körfu þegar átta sekúndur voru eftir.

Jafnræðið hélt áfram í framlengingunni en Þórsarar voru grimmari á lokasprettinum og tryggðu sér sigurinn af vítalínunni undir lokin.

Þetta var þriðja tap Hamars í deildinni en liðið er í 5. sæti með 8 stig. Þórsarar eru í 3. sætinu með 10 stig.

Tölfræði Hamars: Samuel Prescott Jr. 29 stig/8 fráköst (25 í framlagseinkunn), Örn Sigurðarson 26 stig/8 fráköst, Þorsteinn Gunnlaugsson 12 stig/10 fráköst, Oddur Ólafsson 10 stig/9 fráköst/7 stoðsendingar, Ármann Örn Vilbergsson 9 stig, Bjartmar Halldórsson 3 stig, Þórarinn Friðriksson 2 stig.

Fyrri greinIngó, Helgi Valur og Júlí Heiðar í Eurovision
Næsta greinÞórsarar kláruðu botnliðið