Hamar tapaði fyrir toppliðinu

Hamar tók á móti toppliði Þórs Akureyri í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Þórsarar unnu öruggan sigur, 77-109, og tryggðu sér um leið sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð.

Jafnræði var með liðunum í 1. leikhluta og Hamar leiddi að honum loknum, 25-22. Hvergerðingar héldu forystunni allan 2. leikhluta og náðu mest 8 stiga forskoti en munurinn var fjögur stig í hálfleik, 52-48.

Í upphafi seinni hálfleiks fór að síga á ógæfuhliðina hjá Hamri. Liðið skoraði aðeins ellefu stig í 3. leikhluta á meðan Þórsarar léku á alls oddi. Staðan var 63-78 þegar síðasti fjórðungurinn hófst og þar héldu gestirnir áfram að bæta við forskotið.

Samuel Prescott var stigahæstur hjá Hamri með 27 stig og 10 fráköst. Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 18 og tók 10 fráköst og Örn Sigurðarson skoraði 14 stig.

Hamar er í 6. sæti deildarinnar með 18 stig þegar tvær umferðir eru eftir.

Fyrri greinGæsluvarðhald framlengt um fjórar vikur
Næsta greinStórsigur Selfoss gegn Mílunni