Hamar tapaði fyrir botnliðinu

Hamar lauk keppni í 2. deild karla í knattspyrnu með því að tapa fyrir botnliði ÍH, 3-4, á Grýluvelli í dag.

Leikurinn var hinn fjörugasti en gestirnir komust yfir úr vítaspyrnu á 26. mínútu. Fjórum mínútum síðar jafnaði Haraldur Hróðmarsson leikinn fyrir Hamar en gestirnir voru ekki hættir og þeir komust aftur yfir á 38. mínútu. Staðan var 1-2 í hálfleik.

ÍH komst í 1-3 í upphafi síðari hálfleiks en Pétur Sæmundsson minnkaði muninn í 2-3 áður en markakóngurinn Haraldur jafnaði með öðru marki sínu. Það voru hins vegar Hafnfirðingar sem skoruðu síðasta mark leiksins og unnu þar með annan leik sinn á tímabilinu.

Hamar lauk keppni í 2. deildinni í 9. sæti með 30 stig.