Hamar tapaði dýrmætum stigum

Hamarsmenn eru komnir niður í fjórða sætið í hnífjafnri toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu eftir 1-2 tap á heimavelli gegn Njarðvík í kvöld.

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik en Njarðvíkingar komust yfir á 35. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik.

Ragnar Valberg Sigurjónsson jafnaði leikinn fyrir Hamar þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Bæði lið fengu færi á að bæta við mörkum en allt virtist stefna í jafntefli þangað til á 93. mínútu að Njarðvíkingar skoruðu sigurmarkið og komust þar með uppfyrir Hamar á stigatöflunni.

Hamar hefur nú 29 stig í 4. sæti, eins og Njarðvík og Dalvík/Reynir, en Njarðvíkingar hafa besta markahlutfallið af þessum þremur liðum. Höttur er á toppnum með 31 stig og Tindastóll/Hvöt hefur 30.