Hamar tapaði á heimavelli

Hamar tapaði á heimavelli í kvöld þegar Vestri kom í heimsókn í 1. deild karla í körfubolta, 88-91.

Fyrri hálfleikurinn var jafn en Hamar hafði forystuna í hálfleik, 42-38. Gestirnir spýttu í lófana í upphafi síðari hálfleiks og þegar síðasti leikhlutinn hófst var staðan 64-67, Vestra í vil.

Síðasti fjórðungurinn var mjög jafn, liðin skiptust á að skora og Vestramenn voru skrefinu á undan allan leikhlutann. Þeir náðu mest níu stiga forskoti, 75-84, en Hamar náði að minnka muninn aftur í lokin. Það dugði þó ekki til og Hvergerðingar geta nagað sig í handarbökin að hafa klikkað á fjórum vítaskotum á síðustu tíu sekúndum leiksins. Lokatölur 88-91.

Með sigrinum jafnaði Vestri Hamar að stigum, bæði lið hafa 8 stig, Hamar í 5. sæti og Vestri í 6. sæti. Þar fyrir neðan er FSu, einnig með 8 stig en FSu mætir botnliði Ármanns í Iðu á sunnudag.

Tölfræði Hamars: Christopher Woods 28 stig/18 fráköst, Örn Sigurðarson 15 stig/10 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 14 stig/6 stoðsendingar, Oddur Ólafsson 11 stig/6 fráköst, Smári Hrafnsson 9 stig, Ísak Sigurðarson 4 stig, Snorri Þorvaldsson 4 stig, Mikael Rúnar Kristjánsson 3 stig.