Hamar tapaði að Hlíðarenda

Hamarskonur töpuðu fyrir Val í 2. umferð Lengjubikarsins í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 86-71 að Hlíðarenda.

Hamar byrjaði betur í leiknum og leiddi 4-15 eftir tæpar þrjár mínútur. Forskot Hamars hélst allt fram undir lok 1. leikhluta þegar en Valur náði þá 12-4 kafla og leiddi 25-22 að loknum fyrsta fjórðungi.

Valur jók forskotið í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 42-35. Valur fór svo langleiðina með að gera út um leikinn með því að skora níu fyrstu stigin í 3. leikhluta og breyta þar með stöðunni í 51-35.

Hamarskonur gáfu þó ekki upp alla von og bitu frá sér í 4. leikhluta en munurinn var orðinn of mikill.

Hannah Tuomi var stigahæst hjá Hamri með 22 stig og 15 fráköst. Að auki fiskaði hún tíu villur á Valskonur. Jaleesa Ross skoraði 19 stig og tók 8 fráköst og Íris Ásgeirsdóttir skoraði 18 stig og tók 6 fráköst.