Hamar styrkir stöðu sína á toppnum – Selfoss tapaði

Kristijan Vladovic var stigahæstur Selfyssinga með 22 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann góðan útisigur á Vestra en Selfoss tapaði á heimavelli gegn Skallagrími í leikjum kvöldsins í 1. deild karla í körfubolta.

Hamar leiddi eftir 1. leikhluta á Ísafirði en Vestri svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 42-45 í hálfleik. Vestramenn tóku leikinn síðan yfir í 3. leikhluta og héldu forystunni allt þar til tæpar þrjár mínútur voru liðnar af 4. leikhluta en þá jafnaði Hamar 70-70. Lokakafli leiksins var spennandi en Hamarsmenn voru sterkari og unnu sigur, 90-94.

Danero Thomas var stigahæstur hjá Hamri með 28 stig, Everage Richardson skoraði 25 stig og tók 10 fráköst, Toni Jelenkovic skoraði 17 stig og Pálmi Geir Jónsson 10.

Á Selfossi reyndust gestirnir í Skallagrími öflugri í fyrri hálfleik og staðan var 37-48 í leikhléi. Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum og náðu að jafna, 74-74, þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af 4. leikhluta. Skallagrímur svaraði með 15-6 áhlaupi og tryggði sér þar með sigurinn en Selfoss skoraði sex síðustu stigin í leiknum. Lokatölur 86-89.

Kristijan Vladovic var stigahæstur Selfyssinga með 24 stig og Ragnar Sigurjónsson skoraði 17. Christian Cunningham var sömuleiðis öflugur undir körfunni en hann skoraði 8 stig og tók 16 fráköst.

Hamar er í toppsæti 1. deildarinnar með 10 stig en Selfoss er í 6. sæti með 2 stig.

Fyrri greinLífrænn úrgangur – frá upphafi til enda
Næsta greinSelurinn í veglegri jeppaferð í boði Suðurlandsdeildar 4×4