Hamar stendur vel að vígi

Lið Hamars er komið í 2-0 í einvíginu gegn Snæfelli í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta. Hamar vann 89-104 í Hólminum í kvöld.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik og fín tilþrif sáust í sókninni. Staðan var 55-53 í leikhléi, Snæfelli í vil. Hamar hafði undirtökin í síðari hálfleik og herti enn á tökunum á lokamínútunum þar sem forskotið jókst jafnt og þétt.

Larry Thomas var frábær í liði Hamars í kvöld en hann byrjaði á bekknum og skoraði 31 stig á átján og hálfri mínútu. Julian Nelson skilaði einnig góðu framlagi á móti Thomas.

Þriðji leikur liðanna verður í Hveragerði á föstudagskvöld og nái Hamar sigri eru þeir komnir í úrslitaeinvígi um sæti í úrvalsdeildinni. Þar er Breiðablik líklegur andstæðingur en Blikar leiða 2-0 í einvíginu gegn Vestra.

Tölfræði Hamars: Larry Thomas 31/5 fráköst, Julian Nelson 22/8 fráköst, Dovydas Strasunskas 15, Þorgeir Freyr Gíslason 10/4 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 8/4 fráköst/7 stoðsendingar, Mikael Rúnar Kristjánsson 8, Ísak Sigurðarson 7, Smári Hrafnsson 3.

Fyrri greinSat fastur eftir utanvegaakstur
Næsta greinSindri bætti piltamet í 400 m