Hamar steinlá í Njarðvík

Kvennalið Hamars náði sér ekki á strik þegar liðið heimsótti Njarðvík í kvöld í Iceland Express deildinni í körfubolta. Njarðvíkingar sigruðu 77-53.

Hamar var ekki með í 1. leikhluta, Njarðvík komst í 12-3 og leiddi 23-7 að loknum fyrsta fjórðung. Njarðvík gerði út um leikinn í upphafi 2. leikhluta og skoraði á kafla átján stig gegn tveimur. Staðan var þá 41-11 og útséð um úrslitin. Staðan var 45-21 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var mun jafnari en munurinn var óbreyttur og Hamar náði ekki að saxa á forskot Njarðvíkur.

Samantha Murphy var stigahæst Hamarskvenna í kvöld með 26 stig og 10 fráköst. Jenný Harðardóttir skoraði 13 stig, Kristrún Rut Antonsdóttir 5, Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 3 og tók 11 fráköst að auki. Álfhildur Þorsteinsdóttir, Dagný Lísa Davíðsdóttir og Katrín Eik Össurardóttir skoruðu allar 2 stig.

Að tíu umferðum loknum er Hamar í næst neðsta sæti deildarinnar með 4 stig, eins og Fjölnir sem situr í botnsætinu.

Fyrri greinMótmæla harðlega lokun á Hellu
Næsta greinÍskalt á Þingvöllum