Hamar steinlá í Keflavík

Kvennalið Hamars steinlá þegar það mætti Keflavík á útivelli í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta. Keflavík sigraði 105-65.

Keflavík hafði mikla yfirburði í leiknum, þær komust í 8-0 og leiddu 25-13 að loknum 1. leikhluta. Keflavík náði 20 stiga forskoti í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 57-35. Þriðji leikhluti var sá jafnasti en Keflavík jók muninn um fimmtán stig til viðbótar í síðasta fjórðungnum.

Samantha Murphy var stigahæst hjá Hamri með 26 stig. Hannah Tuomi skoraði 17 og Álfhildur Þorsteinsdóttir 16 auk þess að taka 11 fráköst,

Fyrrum Hamarsleikmaðurinn Jaleesa Butler, sem nú leikur með Keflavík, var með fáránlega tölfræði í leiknum. Hún skoraði 16 stig, tók 11 fráköst, sendi 6 stoðsendingar, stal 6 boltum og varði 5 skot. Allt þetta afrekaði hún á tæpum 22 mínútum.

Að loknum tveimur umferðum í deildinni er Hamar á botninum án stiga.