Hamar steinlá í Hólminum

Kvennalið Hamars tapaði stórt þegar liðið heimsótti Snæfell í Domino's-deildinni í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 88-58.

Hamar byrjaði betur í leiknum, skoraði fimmtán stig í 1. leikhluta á meðan Snæfell skoraði 11 stig, þar af þrjár þriggja stiga körfur. Leikurinn snerist við í 2. leikhluta þar sem heimaliðið var mun ákveðnara og tryggði sér níu stiga forskot fyrir hálfleik, 37-28.

Snæfell gerði síðan út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks en Hólmarar hófu 3. leikhluta á 14-2 áhlaupi og eftir það var staðan 51-30. Hamar minnkaði forskotið lítillega áður en 3. leikhluta lauk en staðan var 66-47 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Snæfell jók svo forskotið enn frekar í síðasta fjórðungnum og þegar yfir lauk var munurinn þrjátíu stig.

Fanney Lind Guðmundsdóttir var stigahæst hjá Hamri með 18 stig og 12 fráköst. Íris Ásgeirsdóttir skoraði 17 stig, Di’Amber Johnson 15, Marín Laufey Davíðsdóttir 6, auk þess sem hún tók 12 fráköst og Dagný Lísa Davíðsdóttir skoraði 2 stig.