Hamar steinlá gegn ÍA

Hamar heimsótti ÍA í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Skaginn sigraði stórt, 93-75, og nálgast þar með Hamar á stigatöflunni.

ÍA tók leikinn í sínar hendur strax í upphafi og leiddi að loknum 1. leikhluta, 31-11. Hamar minnkaði muninn í 2. leikhluta og staðan var 50-38 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var í járnum framan af en Hvergerðingum gekk ekkert að vinna niður forskot Skagamanna. ÍA jók svo muninn í síðasta fjórðungnum og fátt var um svör hjá Hamri.

Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá Hamri með 16 stig, Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 14 og tók 23 fráköst og Julian Nelson skoraði 13 stig. Bjartmar Halldórsson skoraði 10, Bjarni Rúnar Lárusson 8, Snorri Þorvaldsson 5 og þeir Hjalti Þorleifsson, Kristinn Ólafsson og Stefán Halldórsson skoruðu allir 3 stig.

Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 24 stig, eins og FSu en hefur leikið einum leik meira. ÍA er í 4. sætinu með 22 stig.

Fyrri greinRisatap á Nesinu
Næsta greinUmf. Selfoss semur við Jako