Hamar steinlá á Ólafsfirði

Hamarsmenn fengu slæma útreið þegar þeir heimsóttu Knattspyrnufélag Fjallabyggðar á Ólafsfjörð í kvöld. Lokatölur voru 5-0.

Heimamenn gerðu út um leikinn á síðustu tuttugu mínútunum í fyrri hálfleik þegar þeir skoruðu fjögur mörk og staðan var 4-0 í hálfleik.

Hamar girti sig í brók í seinni hálfleik en ekki batnaði útlitið þegar Ellert Eiríksson fékk að líta rauða spjaldið á 65. mínútu.

Manni fleiri bætti KF við einu marki undir lokin og lokatölur voru 5-0.

Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 26 stig, stigi á eftir Hetti en þar fyrir neðan koma fjögur lið með 23-25 stig sem anda niður um hálsmálið á Hvergerðingum.