Hamar steinlá á Egilsstöðum

Hamar gerði ekki góða ferð austur á Egilsstaði í 2. deild karla í knattspyrnu í dag þar sem liðið steinlá gegn Hetti, 5-1.

Höttur komst í 2-0 í fyrri hálfleik en Haraldur Hróðmarsson minnkaði muninn í 2-1 fyrir Hamar á 51. mínútu. Þetta var eina mark Hvergerðinga í leiknum og heimamenn bættu við þremur mörkum áður en yfir lauk. Ekki bætti úr skák að Arnþór Kristinsson fékk rauða spjaldið á 65. mínútu og Hvergerðingar léku því manni færri í tæpan hálftíma.