Hamar stal stigum í Kópavogi

Hamarsmenn eru ennþá ósigraðir í 1. deildinni í körfubolta eftir nauman sigur á Breiðabliki á útivelli í kvöld, 79-81.

Blikar höfðu frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 15-10. Hamar svaraði fyrir sig og rúmlega það í 2. leikhluta og komust yfir fyrir hálfleik, 31-34.

Hamar náði sjö stiga forskoti í upphafi síðari hálfleiks en Blikar komu fljótt til baka og breyttu stöðunni í 52-46 en Hamar minnkaði muninn niður í þrjú stig undir forystu Jerry Lewis Hollis.

Hvergerðingar voru á hælunum í upphafi síðasta fjórðungsins og Blikar komust í 70-61 en þá kom 2-11 áhlaup frá Hamri sem jafnaði 72-72 þegar þrjár og hálf mínútur voru eftir af leiknum. Blikar hættu hins vegar að hitta á síðustu þremur mínútunum og Hamar skoraði sjö af síðustu níu stigum liðanna í leiknum og tryggði sér þar með sigurinn.

Hamarsmenn áttu ekki góðan leik í kvöld og fáir þeirra stóðu undir nafni. Hollis var með fínar tölur með 28 stig og 10 fráköst, Örn Sigurðarson sömuleiðis með 20 stig og 12 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 15 stig, Ragnar Á. Nathanaelsson 10, Halldór Gunnar Jónsson 4 og þeir Bjarni Rúnar Lárusson og Bjartmar Halldórsson skoruðu báðir 2 stig.