Hamar skoraði fjórtán mörk – Hrunamenn gerðu jafntefli

Hamar vann risasigur á Snæfelli/UDN og Hrunamenn gerðu jafntefli við Kóngana í leikjum gærkvöldsins í 4. deild karla í knattspyrnu.

Það er skemmst frá því að segja að leikur Hamars og Snæfells/UDN var algjör einstefna og Hvergerðingar voru komnir í 9-0 í hálfleik. Þeir gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik og bættu við fimm mörkum. Lokatölur 14-0.

Hrannar Einarsson skoraði fimm mörk fyrir Hamar, Tómas Hassing skoraði þrennu og Sam Malson tvö mörk. Tómas Aron Tómasson, Ágúst Örlaugur Magnússon og Bjarki Már Brynjarsson skoruðu allir eitt mark, auk þess sem eitt mark var sjálfsmark gestanna.

Það var mikil spenna á Eimskipsvellinum, þar sem Hrunamenn heimsóttu Kóngana í C-riðlinum. Kóngarnir komust í 1-0 á 22. mínútu en Hafþór Ingi Ragnarsson jafnaði metin á 39. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Kóngarnir komust aftur yfir á 60. mínútu en Guðmundur Aron Víðisson jafnaði jafnharðan fyrir Hrunamenn. Kjartan Sigurðsson kom Hrunamönnum í 2-3 á 83. mínútu og allt virtist stefna í fyrsta sigur þeirra í sumar, allt þar til á lokamínútunni að Kóngarnir fengu dæmda vítaspyrnu, sem þeir jöfnuðu úr. Lokatölur 3-3.

Hamar er í toppsæti A-riðilsins með 12 stig en Hrunamenn eru í 6. sæti C-riðils með 2 stig.

Fyrri greinTilkynnt um mannlausan kajak
Næsta greinSkrifað undir samning um heilsueflandi samfélag