Hamar skellti toppliðinu

Óvænt úrslit urðu á Grýluvelli í kvöld þegar Hamar skellti toppliði KV í 2. deild karla í knattspyrnu, 2-1.

Gestirnir voru sterkari fyrsta hálftímann en Hamarsmenn lágu í vörn og það var því þvert á gang leiksins þegar þeir komust yfir með marki úr skyndisókn á 32. mínútu. Vignir Lúðvíksson átti þá góða fyrirgjöf sem Tómas Hassing afgreiddi með skalla í netið og staðan var 1-0 í hálflei.

Það var kraftur í liðunum á upphafsmínútum síðari hálfleiks en á 53. mínútu fengu gestirnir dæmda vítaspyrnu þegar Kristján Valur Sigurjónsson virtist toga einn gestanna niður í teignum. KV jafnaði úr vítaspyrnunni og í kjölfarið voru gestirnir meira með boltann án þess að skapa sér afgerandi færi.

Hamarsmenn brunuðu í eina af fáum sóknum á 70. mínútu og aftur var Vignir maðurinn á bakvið markið þegar hann átti snilldarsendingu innfyrir vörn KV þar sem Ragnar Valberg Sigurjónsson var á undan markverði gestanna í boltann og vippaði yfir hann í netið.

KV sótti látlaust eftir að Hamar komst yfir og þrátt fyrir að mörkin yrðu ekki fleiri gekk ýmislegt á. Leikurinn var harður og fyrrum Hamarsmaðurinn Jón Kári Ívarsson var heppinn að hanga inná þegar hann braut illa á Eiríki Elvy. Á 83. mínútu fékk síðan Davíð Birgisson, fyrrum leikmaður Selfoss, rautt spjald fyrir að hrinda Ingþóri Björgvinssyni eftir að aukaspyrna hafði verið dæmd á KV og gestirnir því manni færri síðustu mínúturnar. Úr aukaspyrnunni komust Hvergerðingar í færi en Ragnar átti þá fyrirgjöf sem Bjarki Sigurðsson skallaði í stöngina. Manni færri sóttu gestirnir stíft á lokamínútunum en náðu ekki að skora.

KV féll því af toppnum en ÍR fór uppfyrir Vesturbæinga með sigri á Njarðvík í kvöld. Hamar lyfti sér hins vegar upp í 7. sætið með 9 stig.

Fyrri greinJónsmessuhátíð á Eyrarbakka á laugardag
Næsta greinNýtt skip í siglingum milli lands og Eyja