Hamar sígur niður töfluna

Hamarsmenn töpuðu í kvöld fyrir Haukum á útivelli í Iceland Express-deild karla í körfubolta, 82-74.

Hamarsmenn mættu með hálfum huga til leiks og skoruðu aðeins 9 stig í fyrsta leikhluta gegn 23 stigum Hauka. Munurinn minnkaði lítillega í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 36-24.

Þriðji fjórðungur var jafn og staðan að honum loknum var 58-44. Hamar náði að minnka muninn í 3 stig í upphafi 4. leikhluta, 64-61. Þá kom 12-1 kafli hjá Haukum sem breytti stöðunni í 76-62 þegar ein mínúta var eftir af leiknum. Hamar skoraði tvær þriggja stiga körfur á síðustu mínútunni en það dugði ekki til því Haukar voru nokkuð öruggir á vítalínunni undir lokin.

Ragnar Nathanaelsson átti mjög góðan leik fyrir Hamar, skoraði 10 stig og tók 19 fráköst. Andre Dabney var stigahæstur með 28 stig og Kjartan Kárason skoraði 13.

Liðin voru með jafn mörg stig fyrir leikinn en Hamarsmenn eru nú komnir niður í 8. sæti deildarinnar með 10 stig og þurfa að spyrna við fótunum ætli þeir sér að vera öruggir í úrslitakeppnina.

Fyrri greinSlökktu greiðlega í sinu
Næsta greinBjörgunarsveitir kallaðar út