Hamar sigraði á Greifamótinu

Karlalið Hamars í körfubolta sigraði á Greifamótinu, árlegu æfingamóti, sem haldið var á Akureyri um helgina. Auk Hamars tóku Höttur og Þór Ak þátt í mótinu.

Hamar mætti Hetti á föstudagskvöld og byrjuðu Hattarmenn betur í leiknum. Um miðbik annars leikhluta tóku Hamarsmenn góðan sprett og leiddu 39-32 í hálfleik. Í seinni hálfleik var bara eitt lið á vellinum og lönduðu Hvergerðingar góðum 87-64 sigri.

Bandaríkjamaðurinn Julian Nelson spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið í þessum leik og komst vel frá sínu, enda ekki búin að ná einni æfingu með liðinu þar sem hann kom til landsins á föstudagsmorgun. Stigahæstir í leiknum voru Þorsteinn Gunnlaugsson með 16 stig, varafyrirliðinn Snorri Þorvaldsson skoraði 15 stig og Bjarni Rúnar Lárussson 14 stig en hann er að koma aftur til leiks eftir meiðsli.

Á laugardeginum mættu Hamarsmenn heimamönnum í Þór og aftur voru Hvergerðingar seinir í gang en voru þó níu stigum yfir í hálfelik 40-31. Ari Gunnarsson þjálfari hristi eitthvað öflugt fram úr erminni í hálfleiks því Hvergerðingar gjörsamlega kjöldrógu heimamenn í seinni hálfleik. Hamar vann seinni hálfleikinn 52-17 og leikinn 92-54. Stighæstir í þessum leik voru Julian Nelson með 22 stig, fyrirliðinn Halldór Gunnar Jónsson með 21 stig öll í seinni hálfleik og Kristinn Ólafsson skoraði 15 stig.

Allir níu leikmenn liðsins sem fóru á mótið fengu að spila og komust vel frá sínu og það sýnir breiddina í liðinu að þrír stigahæstu leikmennirnir eru ekki þeir sömu í þessum tveimur leikjum.

Undirbúningur Hamars fyrir Íslandsmótið heldur nú áfram en fyrsti leikur liðsins í 1. deildinni er þann 10. október gegn Val á útivelli.

Fyrri greinGuðný safnaði 2,2 milljónum króna með kærleiksgöngu sinni
Næsta greinTíu áminntir vegna ljósleysis