Hamar sigraði á Eden mótinu

Hamar lagði Hauka á Eden mótinu í körfuknattleik í gærkvöldi, 84-70, og unnu þar með sigur á mótinu.

Þór Þorl – FSu 63-57
Á lokadegi mótsins mættust Þór Þorlákshöfn og FSu í fyrri leik dagsins. Leikurinn var jafn og spennandi framan af en Þórsarar voru grimmir í 2. leikhluta og stálu nokkrum boltum sem gáfu auðveld stig í kjölfarið. Staðan var 33-25 í hálfleik.

Í síðari hálfleik jókst forskot Þórsara og náðu þeir mest 16 stiga forystu, 54-38. FSu gaf hins vegar í á lokasprettinum og minnkaði muninn niður í sex stig, 63-57.

Emil Karel Einarsson var stigahæstur hjá Þór með 21 stig, Bjarki Gylfason skoraði 14 og Ágúst Grétarsson og Baldur Ragnarsson voru báðir með 10 stig.

Orri Jónsson skoraði mest fyrir FSu, 17 stig, en Sæmundur Valdimarsson skoraði 11 og Bragi Bjarnason 10.

Hamar – Haukar 84-70
Seinni leikur kvöldsins var ekki næstum jafn spennandi og unnu Hamarsmenn nokkuð sannfærandi sigur á Haukum. Munurinn var 20 stig í hálfleik og eftir það var engin spenna í leiknum.

Ragnar Nathanaelsson og Darri Hilmarsson skoruðu 15 stig fyrir Hamar. Nerijus Taraškus og Hilmar Guðjónsson komu næstir þeim með 13 stig.

Hjá Haukum skoraði Davíð Páll Hermannsson 17 stig, Örn Sigurðsson 16 og Haukur Óskarsson 10.

Hamarsmenn unnu alla sína leiki og sigruðu því örugglega á mótinu. FSu varð í 2. sæti, Þór í þriðja og Haukar í fjórða. FSu, Þór og Haukar unnu öll einn leik þannig að röð liðanna réðst af innbyrðisviðureignum hjá þeim.

Fyrri greinDorrit kenndi Sámi að synda
Næsta greinFramkvæmdir við varnargarða kynntar