Hamar sendir frá sér yfirlýsingu

Stjórn knattspyrnudeildar Hamars biðst afsökunar á því að hafa ekki meinað ölvuðum gestum aðkomuliðsins aðgang að Grýluvelli á leik Hamars og KF í 2. deild karla í gær.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem knattspyrnudeildin sendi frá sér í dag vegna atviks sem varð á leiknum í gær þegar vallargestur vankaðist eftir viðskipti sín við gæslumann á vellinum.

Yfirlýsing knattspyrnudeildarinnar fer orðrétt hér að neðan.

Yfirlýsing frá knattspyrnudeild Hamars vegna atviks sem varð á leik Hamars og KF.

Stuðningsmenn KF fjölmenntu á lokaleik liðanna í 2. deild, leik þar sem KF gat tryggt sæti sitt í 1. deild að ári. Langflestir stuðningsmenn á vellinum, jafnt heimamenn sem og gestir, höguðu sér vel á áhorfendasvæðinu og voru stuðningsmenn gestanna upp til hópa liði sínu til sóma. Þó varð vart við einhverja ölvun meðal nokkurra gesta aðkomuliðsins og biðst knattspyrnudeild Hamars afsökunar á því að hafa ekki meinað þeim aðgang að vellinum.

Undir lok leiks, er gestirnir höfðu jafnað leikinn, rauk stuðningsmaður KF út fyrir afmarkað svæði áhorfenda og inn á í átt að keppnisvellinum. Gæslumaður á vellinum stjakaði við áhorfandanum sem rann til í blautu grasinu og féll niður. Við fallið virtist umræddur stuðningsmaður hafa vankast. Vegna þessa atviks varð mikil múgæsing meðal stuðningsmanna KF sem gerðu aðsúg að gæslumönnum vallarins, svo mikinn að sá sem féll mátti teljast heppinn að hafa ekki verið troðinn niður í hamaganginum.

Gæslumenn vallarins brugðust hárrétt við er þeir reyndu að halda aftur af æstum stuðningsmönnum KF og mynda skjól í kringum þann sem lá niðri svo hægt væri að veita honum aðhlynningu. Kallað var strax á sjúkrabíl og fluttu gæslumenn þann sem féll á sjúkrabörum inn í félagsaðstöðu Hamars til aðhlynningar þar til sjúkrabíll mætti á staðinn.

Ekki var atvikið alvarlegra en svo að umræddur stuðningsmaður var mættur á áhorfendavæðið nokkrum mínútum síðar og tók svo aftur upp á því að fara út fyrir áhorfendasvæðið og inn á völlinn til að fagna með leikmönnum KF.

Knattspyrnudeild Hamars stendur heil að baki ákvörðunum og verkum gæslumanna sinna en harmar um leið atvikið sem varð og einhliða fréttaflutning af því. Knattspyrnudeild Hamars þykir miður að atvik sem þetta skuli verða til þess að herða verði gæslu á leikjum liðsins í framtíðinni enda hafa sambærileg atvik ekki komið upp meðal neinna annarra áhorfenda á Grýluvelli, sem hafa sýnt af sér góðan þokka og verið félögum sínum til sóma.

Um leið vill knattspyrnudeild Hamars óska liðsmönnum, aðstandendum og öðrum sem tengjast liði KF til hamingju með sætið í 1. deild að ári og óska þeim góðs gengis innan vallar sem utan um ókomna framtíð.

Stjórn knattspyrnudeildar Hamars.