Hamar réð ekki við Hardy

Hamar og Haukar áttust við í Domino's-deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í kvöld. Gestirnir fóru með sigur af hólmi, 80-86.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta, Haukar leiddu 9-14 eftir rúma sex og hálfa mínútu en Hamar minnkaði muninn í 15-17 fyrir lok 1. leikhluta.

Hamar náði tíu stiga forskoti um miðjan 2. leikhluta, 34-24, en Haukar svöruðu með tíu stigum í röð og jöfnuðu metin. Hamar skoraði hins vegar fimm síðustu stigin í fyrri hálfleik og leiddi í leikhléinu, 39-34.

Haukar höfðu undirtökin í 3. leikhluta og sneru leiknum aftur sér í vil. Þar var bandaríski leikmaðurinn Lele Hardy allt í öllu, Hamarskonur réðu ekkert við hana en Hardy skoraði 24 af 29 stigum Hauka í 3. leikhlutanum. Staðan var 55-63 að honum loknum.

Síðasti fjórðungurinn var jafn, Hamarsliðið elti Hauka eins og skugginn, en gestirnir náðu að halda Hvergerðingunum frá sér þó að munurinn væri aldrei mikill. Lokatölur urðu 80-86.

Di’Amber Johnson átti frábæran leik fyrir Hamar, skoraði 42 stig og tók 10 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 13 stig, Íris Ásgeirsdóttir 9, Marín Laufey Davíðsdóttir 8, Jenný Harðardóttir 6 og Dagný Lísa Davíðsdóttir 2.

Magnað framlag Johnson sló þó ekki út frammistöðu Lele Hardy sem skoraði 46 stig og tók 19 fráköst fyrir Hauka en framlagseinkunn hennar var 55.

Með sigrinum fóru Haukar uppfyrir Hamar á töflunni. Bæði lið hafa sex stig í 4.-5. sæti.

Fyrri greinÞórsarar flugu í næstu umferð
Næsta greinAllar nýju lóðirnar farnar