Hamar og Þór með sameinað kvennalið

Hallgrímur (t.v.) ásamt meistaraflokksráði við undirritun þjálfarasamningsins. Með honum við borðið situr Jón Páll Kristófersson en fyrir aftan eru Gunnsteinn R. Ómarsson, Katrín Alda Sveinsdóttir, Guðni Birgisson, Rannveig Reynisdóttir og Bjarney Sif Ægisdóttir.

Körfuknattleiksdeildir Hamars í Hveragerði og Þórs frá Þorlákshöfn hafa ákveðið að ganga til samstarfs í meistaraflokki kvenna og vera með sameiginlegt lið í 1. deild kvenna á næsta leiktímabili.

Hallgrímur Brynjólfsson hefur verið ráðinn þjálfari liðsins til næstu þriggja ára. Hallgrímur hefur víðtæka þjálfarareynslu og þjálfaði meðal annars kvennalið Hamars frá 2012-2015 og kom liðinu þá upp í efstu deild.

Í tilkynningu frá félögunum segir að sameiginlegt lið búi að góðum grunni meistaraflokksliðs Hamars sem leikið hefur í 1. deildinni undanfarin ár og stefnt er á efla þann hóp og halda áfram að byggja upp til framtíðar. Liðið mun æfa og keppa bæði í Hveragerði og Þorlákshöfn og er mikil spenna fyrir þessu sameiginlega verkefni.

Fyrri greinMaðurinn laus úr haldi
Næsta grein150 keppendur á biðlista